Trúlega verður það dómur sögunnar að á fyrra
helmingi tuttugustu aldarinnar, hafi tvinnast saman einhverjir
þýðingarmestu örlagaþræðir í sögu íslensku þjóðarinnar.Á þessum
tíma verður Ísland sjálfstætt ríki undir Danakonungi (1918) og síðan
fullvalda lýðveldi (1944), eftir að hafa lotið erlendum yfirráðum í
margar aldir.
Tuttugasta öldin hefur líka gefið íslensku
þjóðinni slíka velmegun, að hún fram til þessa hefur verið í hópi
þeirra þjóða þar sem lífskjör eru hvað best. Það er því ekki of sagt
að algjör bylting hafi orðið í lifnaðarháttum Íslendinga á þessari
öld.
Ekki komu þessar breytingar af sjálfu sér. Frelsið
kostaði baráttu þótt hún væri ei með vopnum háð og það var þessi
barátta fyrir frelsinu sem reyndist þjóðinni mikill orkugjafi enda
vöktu sigrarnir í sjálfstæðismálunum aukna trú á framtíðina.
Þjóðin hafði dug til þess að færa sér í nyt hinar
miklu framfarir sem áttu sér stað í veröldinni, ekki síst eftir lok
síðari heimsstyrjaldar. Ekki var hikað við að takast á fangbrögðum
við miklar framkvæmdir og stórar athafnir.
Í baráttunni fyrir stjórnarfarslegu og
efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar var það mikil gæfa að eiga
"aldamótamennina" með sínar björtu draumsýnir og óbilandi trú á
landið sitt. Þá var það ekki síður gæfa þjóðarinnar að hún eignaðist
dugmikla stjórnmálamenn, sem reyndu með störfum sínum að tryggja það
að draumar aldamótamannanna yrðu að veruleika.
En fleira kom hér til sem skipti sköpum. Samtök
fólksins höfðu komið til sögunnar og áttu eftir að láta að sér kveða
í ýmsum myndum. Í hópi þessara samtaka var samvinnuhreyfingin sem
festi rætur í Suður-Þingeyjarsýslu með stofnun fyrsta kaupfélagsins
árið 1882. Þá urðu ungmennafélögin þýðingarmikil samtök ekki síst á
fyrstu áratugum aldarinnar.
"Aldamótamennirnir" voru þar í forystusveit en
þeir höfðu einmitt næman skilning á því að samvinnufélögin og
ungmennafélögin voru tveir hornsteinar í uppbyggingu frelsis og
framfara. Ungmennafélögin lögðu áherslu á þjóðrækni og þjóðfrelsi.
Samvinnufélögin voru hins vegar sameinaða aflið til að bæta
efnahagslega afkomu heimilanna, gefa aukna trú á framtíðina og
stuðla að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.
Hvor tveggja lögðu þessi samtök áherslu á
manngildið sem skipa skyldi hærri sess en óheft peningahyggja.
Samvinnuhreyfingin byggðist á frjálsum samtökum fjölda einstaklinga
á grundvelli lýðræðis. Þannig gat fólkið sjálft með samtakamætti
sínum skapað afl framfara sem varð þýðingarmikill þáttur í
efnahagslífi þjóðarinnar.
Það fór ekki á milli mála að margar af hugsjónum
"aldamótamannanna" urðu að veruleika í tímans rás. Dugmiklir og
framsýnir stjórnmálamenn unnu drengilega að því að láta
framtíðardraumana rætast. Þá lyftu samtök fólksins í landinu
grettistökum á ýmsum sviðum. Þar í flokki voru samvinnufélögin
afkastamest.
Gamalt orðtæki segir: "Veldur hver á heldur".
Þetta á við stjórnmálin, rekstur fyrirtækja, félagasamtök, já
reyndar flestar athafnir manna. Það var gæfa samvinnuhreyfingarinnar
að eiga dugmikla frumherja og síðar farsæla forvígismenn. Í
samvinnuhreyfingunni var það grundvallaratriði að ákveðnar hugsjónir
um samvinnu og samtakamátt gætu notið sín. Meðal annars þess vegna
var það svo þýðingarmikið að til væru forvígismenn sem gætu túlkað
þessar hugsjónir og sameinað fólk undir merki þeirra.
Einn af forvígismönnum í samvinnuhreyfingunni frá
byrjun fjórða áratugs aldarinnar til seinni hluta þess áttunda var
Eysteinn Jónsson. Hann fæddist á Djúpavogi 1906 og ólst þar upp
í foreldrahúsum. Þegar aldur leyfði stundaði hann þar vinnu bæði til
sjós og lands með heimanámi hjá föður sínum séra Jóni Finnssyni.
Hann lauk prófi í Samvinnuskólanum hjá Jónasi
Jónssyni 1927. Þegar hér er komið sögu hefði Eysteinn trúlega verið
reiðubúinn að hefja störf innan samvinnuhreyfingarinnar, ef Jónas
skólastjóri, sem þá var mesti ráðamaður innan Framsóknarflokksins,
hefði ekki ætlað honum annað hlutverk.
Þannig voru mál með vexti, að Jónas lagði sig fram
um að fá unga menn til starfa fyrir Framsóknarflokkinn. Ljóst er að
í Eysteini sá hann efnilegan stjórnmálamann, enda kvaddi Jónas hann
til starfa sem aðstoðarmann sinn, þegar hann varð ráðherra 1927 í
ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar.
Eysteinn hafði nú kastað teningnum.
Stjórnmálabrautin var ráðin og framinn skammt undan. Hann varð
foringi ungra Framsóknarmanna, hafði þá þegar fengið orð fyrir að
vera ræðuskörungur.
Eysteinn verður svo fjármálaráðherra í ríkisstjórn
Hermanns Jónassonar 1934, sem var samstjórn Framsóknarflokks og
Alþýðuflokks og fékk nafnið "Stjórn hinna vinnandi stétta". Eysteinn
var þá aðeins 27 ára gamall og þá orðinn þingmaður Sunnmýlinga.
Heimskreppan var þá í algleymingi og það reyndi að sjálfsögðu mikið
á fjármálaráðherrann að ráða fram úr hinum erfiðu málum sem upp
komu.
Ekki verður um það deilt að Eysteinn stóðst með
mikilli prýði fyrsta prófið í ráðherrastóli. Á löngum
stjórnmálaferli sínum, sem ekki verður rakinn hér, enda gerð góð
skil í þriggja binda æviminningum, - átti Eysteinn eftir að gangast
undir mörg reynslupróf, bæði í ráðherrastólum og á alþingi.
Þau próf stóðst hann þannig, að hann verður talinn
í hópi mestu stjórnmálamanna landsins á árunum 19341974. Hann
markaði djúp og heillarík spor í þjóðlíf Íslendinga á þessum árum,
þegar þjóðin var að brjótast út úr fátæktinni og byggja upp
velferðarríki, sem ekki á sér marga jafningja. Geta skal þess að
Eysteinn tók einarða afstöðu með varnarsamningnum milli Íslands og
Bandaríkjanna 1951.
Þá átti hann ásamt öðrum framsóknarmönnum þátt í
því að sett var fram krafa í ríkisstjórn Ólafs Thors 1953, þar sem
Eysteinn var ráðherra, að erlendir verktakar á Keflavíkurflugvelli
hættu starfsemi sinni en íslenskir verktakar leystu þá af hólmi.
Eysteinn Jónsson var þó ekki aðeins
stjórnmálaforingi, heldur líka forystumaður í íslensku
samvinnuhreyfingunni. Störf hans þar standa mér nálægt, enda átti ég
á þeim vettvangi samvinnu með honum í áratugi.
Er ég ekki frá því að samvinnuhugsjónirnar sem
Eysteinn bar í brjósti á unga aldri, hafi orðið honum til styrktar í
stjórnmálabaráttunni, enda var samvinnupólitík hluti af lífsviðhorfi
hans. Á sama hátt hefur það verið samvinnuhreyfingunni ómetanlegur
styrkur að eiga slíkan málsvara sem Eysteinn var, hvort sem var í
ríkisstjórn, á alþingi eða í daglegum störfum.
Það var samvinnuhreyfingunni enn meiri nauðsyn að
eiga góða málsvara, vegna þess að frá því henni tók að vaxa fiskur
um hrygg, hefur hún átt mótherja sem hafa lagt sig fram um að hefta
framgang samvinnustarfsins, að sjálfsögðu í því augnamiði að styrkja
samkeppnisaðila.
Störf þessara aðila voru með ýmsu móti: Það snerti
lagasetningar á alþingi, fyrirgreiðslur til mótherjanna í sumum
ríkisstofnunum og ráðuneytum, að ógleymdum borgaryfirvöldum, sem
iðulega lögðu steina í götu samvinnufélaganna, bæði Sambandsins og
kaupfélagsins í Reykjavík.
Auðvitað var það hin pólitíska undiralda sem hér
áður fyrr mótaði ákvarðanir í bæjarstjórn, þegar mál
samvinnuhreyfingarinnar voru á dagskrá. Það var því ekki vanþörf á
því, að samvinnuhreyfingin ætti málsvara á alþingi, enda voru
aðal-mótherjarnir þar vel mannaðir. Víðar í stjórnkerfinu þurfti hún
að eiga málsvara.
Störf Eysteins Jónssonar innan
samvinnuhreyfingarinnar voru margþætt. Hann átti stóran þátt í
stofnun Kaupfélags Reykjavíkur árið 1931. Var hann formaður
félagsins frá upphafi uns það sameinaðist öðrum hliðstæðum félögum í
Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, KRON, sem sett var á stofn árið
1934. Í stjórn Sambandsins var hann kjörinn 1944 og sat þar óslitið
til ársins 1978.
Hann gegndi stöðu varaformanns 1946 til 1975.
Síðustu þrjú árin var hann stjórnarformaður Sambandsins. Hafði hann
þá setið í Sambandsstjórn í 34 ár. Þá átti Eysteinn sæti í stjórn
menningarsjóðs Sambandsins í mörg ár. Þekking og reynsla Eysteins
Jónssonar af þjóðmálum og starfsháttum víðsvegar um landið komu að
góðu liði við stjórnarstörf í Sambandinu.
Á Sambandsstjórnarfundum fór oft mikill tími í
umræður um málefni kaupfélaganna. Félögin leituðu oft til
Sambandsins, þegar um vandamál var að ræða í rekstrinum. Eysteinn
var bæði tillögu- og úrræðagóður þegar finna þurfti lausn á
vandamálum. Oftast var hann hvetjandi þegar uppbyggingarstarf var
til umræðu.
Íslensk samvinnuhreyfing á Eysteini Jónssyni
miklar þakkir að gjalda. Brennandi áhugi hans á málefnum
samvinnufélaganna var mikill. Með löngu starfi í stjórn Sambandsins
tengdi hann saman nútíð og fortíð.
Reynsla hans af störfum alþingis í áratugi, en þar
sat hann á forsetastóli í nokkur ár, og af störfum í æði mörgum
ríkisstjórnum, gaf honum óvenjumikla innsýn í stjórnmálin og sjálfan
þjóðarbúskapinn. Það var því þýðingarmikið fyrir samvinnuhreyfinguna
að eiga Eystein Jónsson sem málsvara í svo langan tíma.
Á þeim árum sem Eysteinn sat í Sambandsstjórn var
samvinnuhreyfingin öflug og lagði fram mikinn skerf í
þjóðarbúskapinn. Hreyfingin átti ekki lítinn þátt í því að skapa það
velferðarþjóðfélag sem við nú búum við.
Fyrir nokkrum árum byrjaði hins vegar að syrta í
álinn, ekki síst hjá Sambandinu. Þróun mála þar olli miklum
vonbrigðum ekki síst hjá eldri forystumönnum.
Ekki má ljúka minningargrein um Eystein Jónsson,
án þess að minnast á hug hans til íslenskrar náttúru. Eysteinn hefur
verið "náttúrubarn", mikill útivistarmaður, mikill náttúruskoðandi.
Jafnvel í mesta annríki stjórnmálanna gaf hann sér tíma til þess að
ganga á vit móður náttúru. Þangað sótti hann andlega hvíld og styrk
til að takast á við hin margþættu verkefni.
Útiveran, skíðaferðir og göngur á fjöll, reyndist
mikil og góð heilsubót, enda bar hann aldurinn vel, ekki síst þegar
tillit er tekið til þess andlega álags sem fylgdi því að vera í
forystu stjórnmálanna.
Áhugi Eysteins fyrir íslenskri náttúru varð til
þess að hann hóf afskipti af náttúruvernd og umhverfismálum. Þessum
málum helgaði hann að hluta störf sín og sýnir það best framsýni
hans í þessum málum. Hann hafði til dæmis forystu um nýja
náttúruverndarlöggjöf og varð formaður náttúruverndarráðs 1972.
Því starfi gegndi hann í nokkur ár. Eysteinn hefur
ferðast mikið um landið og skoðað náttúru þess. Hann þekkir þar
margan krók og kima, fjöll og dali. Gönguleiðirnar í kringum
Reykjavík eru kunningjar hans, þótt aldurinn hefði færst yfir var
útiverunni ekki gefin grið.
Farið var á skíði, þegar færi gafst, ekki bara
gönguskíðin. Haldið var upp í Bláfjöllin og farið þar í stærstu
lyftunni upp á hæstu brekkurnar. Þar sáu menn Eystein renna sér í
rólegu svigi af miklu öryggi niður hlíðarnar.
Eysteinn Jónsson.
Skilaði miklu ævistarfi. Hann var eindreginn
félagshyggjumaður, ósérhlífinn með afbrigðum, hlýr og raungóður í
smáu og stóru.
Sem kappsfullur stjórnmálamaður var hann eðlilega
umdeildur en málafylgja hans var heiðarleg og laus við rætni.
Af ferli slíkra manna má margt læra.
1971
Stjórnarflokkarnir Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur snúast
gegnþingsályktun Framsóknarmanna um útfærslu landhelginnar í 50
mílur.
Viðreisnarstjórnin fellur í
kosningum og við tekur vinstri stjórn undir forsæti
Ólafs Jóhannessonar. Eitt af
meginmarkmiðum hennar var að stækka landhelgina í 50 mílur.
1972
Landhelgin stækkuð í 50
mílur 1. september og ákveðið að stefna að 200 mílna
fiskveiðilögsögu.
(
Spila )
1975
Landhelgin færð út í 200 mílur.
(
Spila )